STEFNA SÓLAR EHF UM FORVARNIR
GEGN EINELTI, ÁREITNI OG VANLÍÐAN Á VINNUSTAÐ

 

Yfirlýsing og skilgreiningar

Sólar ehf lýsir því yfir að allt starfsfólk á rétt á að komið sé fram við það af virðingu og umhyggju. Einelti, áreitni og vanlíðan á vinnustað er ekki liðið.

Sólar ehf skilgreinir einelti með eftirfarandi hætti: „Óviðeigandi og ósæmandi síendurtekin hegðun sem erfitt er að verjast og er ætlað að niðurlægja, móðga, særa, mismuna, ógna og/eða valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að.“

Sólar ehf skilgreinir áreitni með eftirfarandi hætti: „Munnlegar athugasemdir sem ætlað er að meiða, beinar eða óbeinar hótanir, líkamsmeiðingar af einhverjum toga og önnur óviðeigandi og ósæmandi hegðun. Kynferðisleg áreitni fellur hér undir.“

Stefna þessi skal vera aðgengileg öllu starfsfólki, kynnt fyrir nýjum starfsmönnum og endurskoðuð þegar þurfa þykir.

Stefnan er unnin í samræmi við reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað.

 

Meginmarkmið

 • Að Sólar ehf sé góður vinnustaður þar sem öllum líður vel.
 • Að stuðla að forvörnum og fræðslu til starfsfólk.
 • Að starfsfólk sé meðvitað um einelti, áreitni og vanlíðan og stuðli að því að fyrirbyggja slíkt á vinnustöðum fyrirtækisins.
 • Að starfsfólk þekki boðleiðir og geti brugðist við með réttum hætti.
 • Að starfsfólk sé meðvitað um málsmeðferð eineltis- og áreitnimála.

 

Réttindi og skyldur

Sólar ehf starfrækir ráðgjafarteymi sem stýrt er af framkvæmdastjóra og sér um fræðslu til starfsfólks og tekur á málum er varða einelti, áreitni eða vanlíðan.

Starfsmaður sem orðið hefur fyrir eða hefur vitneskju um einelti, áreitni eða vanlíðan á vinnustað skal upplýsa yfirmann, öryggistrúnaðarmann eða mannauðsstjóra um það.

Ráðgjafarteyminu ber skylda til að bregðast við eins fljótt og kostur er komi fram ábending um einelti, áreitni eða aðra óviðeigandi hegðun í garð starfsfólks á vinnustað.

Öll mál sem berast ráðgjafarteyminu eru könnuð.

Ráðgjafarteymið tryggir að fyllsta trúnaðar sé gætt í hvívetna við meðferð mála og gagna til að vernda hagsmuni allra hlutaðeigandi.

Starfsfólk skal hafa gildi Sólar ehf – virðin, jákvæðni og fagmennsku – að leiðarljósi í daglegu starfi og sýna siðferðilega ábyrgð í samskiptum við samstarfsfólk.

Allt starfsfólk skal taka þátt í að skapa jákvætt vinnuumhverfi sem stuðlar að vellíðan á vinnustað og er laust við einelti, áreitni og vanlíðan.

 

Áætlun Sólar ehf  um viðbrögð við einelti, áreitni og vanlíðan á vinnustað

 

Boðleiðir

Starfsmenn sem tilkynna um einelti geta leitað til næsta yfirmanns eða annarra stjórnenda á vinnustaðnum. Einnig er hægt að leita til einhvers af eftirtöldum aðilum:

 • Trúnaðarmaður á viðkomandi vinnustað.
 • Öryggistrúnaðarmaður á viðkomandi vinnustað.
 • Öryggisvörður á viðkomandi vinnustað.

 

Málsmeðferð

Málsmeðferð eineltis- og áreitnimála felast í greiningarvinnu, lausnavinnu og eftirfylgni.

 

Greiningarvinna

Miðar að því að fá fram sem gleggsta mynd af öllum hliðum málsins. Yfirmaður getur eftir atvikum og í samráði við málsaðila tekið þátt í málsmeðferð. Lagt er upp með að tveir fulltrúar teymisins taki viðtöl við málsaðila. Viðmælanda er heimilt að hafa með sér trúnaðarmann eða annan aðila.

Ráðgjafarteymið hefur vinnslu máls þegar tilkynning hefur borist með tölvupósti. Snerti málið fulltrúa í ráðgjafarteymi skal hann víkja úr teyminu á meðan málsmeðferð fer fram og öryggistrúnaðarmaður taka sæti hans.

 • Viðtal við þolanda.
 • Viðtal við geranda og honum gerð grein fyrir stöðu mála.

  Nánari upplýsingaöflun ef við á. Getur falið í sér viðtöl við vitni, samstarfsfólk og/eða stjórnendur.

 • Skrifleg greinargerð um málavöxtu.

 

Lausnavinna

Miðar að því að finna viðeigandi úrlausnir sem allir málsaðilar geta sætt sig við.

 • Viðtal við málsaðila – ýmist saman eða sitt í hvoru lagi, allt eftir eðli málsins.
 • Rætt við stjórnanda vinnustaðarins og/eða næstu yfirmenn málsaðila.
 • Áætlun um framhaldið lögð upp í samráði við málsaðila og yfirmenn þeirra.
 • Skrifað undir sáttasamning.
 • Í vissum tilfellum þarf að leita til utanaðkomandi aðila við úrvinnslu mála, til dæmis ef þörf er á stuðningsviðtölum eða öðrum úrræðum.

 

Eftirfylgni

Miðar að því að tryggja bætta líðan málsaðila og að koma í veg fyrir að eineltis- eða áreitnihegðun endurtaki sig.

 • Eftir einn mánuð: Fulltrúar ráðgjafarteymis boða hvern málsaðila fyrir sig á fund til að kanna stöðu mála. Komi í ljós að einelti, áreitni eða vanlíðan eigi sér þá enn stað skal ráðgjafarteymi funda með málsaðilum til að fara yfir næstu skref.
 • Eftir þrjá mánuði: Fulltrúar ráðgjafarteymis taka stöðuna aftur og ef allt er í eðlilegum farvegi telst málsmeðferð lokið. Ef eineltis- eða áreitnihegðun er enn til staðar skal ráðgjafarteymi taka málið upp að nýju og fjalla um það.

 

Tölvupóstur, smáskilaboð og samskiptasíður á netinu

Starfsmenn Sólar ehf skulu sýna virðingu í samskiptum sínum í síma, tölvupósti og á samskiptasíðum á netinu. Óviðeigandi eða særandi ummæli í ofangreindum samskiptum geta flokkast sem einelti eða áreitni og sé það tilkynnt til ráðgjafarteymis fær málið meðhöndlun í samræmi við það.

 

Áframhald á eineltis- eða áreitnihegðun eftir að málsmeðferð lýkur

Starfsmaður sem verður uppvís að því að leggja einhvern í einelti eða áreita á annan hátt og heldur uppteknum hætti þrátt fyrir að málsmeðferð teljist lokið (hvort heldur sem um er að ræða sama þolanda eða nýjan), má búast við að fá skriflega áminningu. Sýni viðkomandi starfsmaður áframhaldandi eineltis- eða áreitnihegðun þrátt fyrir að hafa fengið áminningu má hann búast við að verða sagt upp störfum í samræmi við réttindi og skyldur samkvæmt stéttarfélagi viðkomandi starfsmanns.

 

Meðferð gagna

Móttekið mál er skráð í skjalakerfi Sólar ehf og aðgangi að því læst fyrir alla nema fulltrúa í ráðgjafarteymi. Öll gögn eru geymd í tólf mánuði frá því að máli telst lokið. Að þeim tíma liðnum er öllum gögnum eytt nema greinargerð og sáttasamningi.

Stefna þessi tekur gildi frá og með 01. Apríl 2014.


Sólar notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Sólar notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á solarehf.is


Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.

 • wordpress_test_cookie
 • wordpress_logged_in_
 • wordpress_sec

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur